Við vinnum nú hörðum höndum að smíðun, nýrrar, spennandi og glæsilegrar klifuraðstöðu á Akureyri. Aðstaðan verður nýtt heimili 600Klifur!
Að baki 600Klifur er 600Norður sem hefur einsett sér frá 2017 að ýta undir vöxt fjallamenningar á Norðurlandi og Íslandi. Fyrri verkefni 600Norður eru smíði á klifuraðstöðu á Hjalteyri, uppsetning smærri klifurveggja í skólum og félagsmiðstöðum, Sigló Freeride skíðakeppni og Kea x 600Norður fjallaskíða vetrarferðir, svo eitthvað sé nefnt.
Nú er komið að stærsta verkefninu hingað til: Að færa klifrurum landsins nýtt viðmið í klifuraðstöðu að evrópskri fyrirmynd.
Dyrnar verða opnaðar sumarið 2025. Í húsnæðinu verður á boðstólnum vegleg aðstaða grjótaglímu, stór afmarkaður fjölskyldusalur, línuklifur með átta og þrettán metra háum veggjum ásamt líkamsræktaraðstöðu. Auk þessa verður falleg kaffitería þar sem hægt verður að tylla sér og slaka á. Allt undir einu þaki!
Klifursalurinn verður í hjarta Akureyrar í tæplega 1000m2 húsnæði á tveimur hæðum. Fengum við til liðs við okkur fyrirtækin, Kletterkultur, Blocz og Artrock til að smíða veggina. Þeir eru forsmíðaðir í Þýskalandi og Austurríki og fluttir til landsins og uppsettir á fjórum vikum!
Mikil vinna er að baki í hönnun, undirbúningi, leyfum, niðurrifi og smíðun. Framundan er áframhaldandi vinna við að undirbúa rýmin fyrir uppsetningu veggjanna og koma skikki á allt utanumhald og rekstur.
Mikið sem við hlökkum til að taka á móti ykkur í nýrri klifuraðstöðu! Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með gangi mála þá bendum við á instagramsíðu 600Klifur https://www.instagram.com/600klifur/?hl=en
Comments